Williamsliðið birti í dag myndir af útliti keppnisbílsins eins og það verður á komandi vertíð. Við bílprófanir í vetur hefur bíllinn verið í sex mismunandi útgáfum sem allar eru talsvert ólíkar hinu endanlega útliti.
Tilgangurinn með mismunandi útliti í vetur var að fagna merkum tímamótum sem eiga sér stað í ár í sögu Williams.
Ökuþórar Williams hafa vakið athygli í vetur og búist er við að bíllinn verði mun samkeppnisfærari í ár en í fyrra og liðið eigi eftir að koma á óvart.
Annar eigandi liðsins, Patrick Head, gengst við því að hann vonist til að Williams geti storkað Ferrari og McLaren í nokkrum mótum í ár.
„Við setjum ekki stefnuna á neitt lið, reynum bara gera eins vel og við getum. Ferrari vann titlana í fyrra svo þeir eru skotmarkið. Auðvitað verð ég svekktur takist okkur ekki að skelka Ferrari ogMcLaren á stundum. En þau virðast bæði standa mjög vel að vígi við upphaf keppnistíðarinnar.
BMW verður einnig seigt og Red Bull bílarnir virðast góðir. Renault hefur látið til sín taka og ég er viss um að þeir verða betri í ár en í fyrra. Maður hefur þó ekki á tilfinningunni að þeir muni ógna Ferrari ogMcLaren,“ sagði Head í dag í tilefni myndbirtingarinnar.
Hann segir að Williamsliðinu hafi farið mjög fram frá í fyrra. Erfitt sé þó að átta sig á því hvar það stendur gagnvart öðrum að vetrarprófunum loknum. „Það er mjög erfitt að dæma um það því margir bílar hafa sýnt góða spretti.
Við vitum að bíllinn er miklu betri en í fyrra en önnur lið hafa líka bætt sína keppnisgripi,“ sagði Head.