Luca Badoer hjá Ferrari þarf tíma til að venjast allt öðru vísi reglum en giltu þegar hann keppti síðast, fyrir áratug. Hann átti erfitt með að draga úr ferðinni á bílskúrasvæðinu og kostar það Ferrari skilding.
Alls var Badoer gripinn fjórum sinnum á æfingunum tveimur á föstudag af hraðamyndavélum þjónustureinarinnar. Ók hann hraðar þar en allir aðrir, en annað var uppi á teningnum á æfingunum og svo kappakstrinum í dag.
Alls þarf Ferrari að borga 4.680 evrur í sekt vegna hraðabrota Badoer. Hann var jafnframt kvaddur fyrir dómarana og veitt áminning fyrir síbrot þessi.
Badoer kvaðst eiga mikið verk fyrir höndum að læra á Ferraribílinn, á æfingum og í keppni.
Tvisvar sinnum braut Badoer af sér fyrir hádegi og aftur tvisvar síðdegis, á svæði þar sem aðeins mátti aka kappakstursbílnum á 60 km/klst hraða.
Badoer var þó ekki í mjög slæmum félagsskap í brotum sínum því Jenson Button, forystusauðurinn í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, hlaut einnig sekt fyrir hraðakstur á bílskúrasvæðinu.