Domenicali segir af sér

Stefano Domenicali hverfur þegar í stað af stjórnborði Ferrariliðsins.
Stefano Domenicali hverfur þegar í stað af stjórnborði Ferrariliðsins. mbl.is/afp

Stefano Domenicali beið þess ekki að verða sagt upp - eins og talið var yfirvofandi - heldur sagði af sér í morgun sem liðsstjóri Ferrariliðsins. Við starfanum tekur Marco Mattiacci, sölustjóri Ferrari í Norður-Ameríku.

Ferrari hefur ekki hampað heimsmeistaratitli frá árinu 2008 og átt erfitt uppdráttar það sem af er yfirstandandi keppnistíð. Samanlögð stigauppskera Fernando Alonso og Kimi Räikkönen dugar aðeins til fimmta sætis í keppni bílsmiða eftir þrjú mót.

Og í kappakstrinum í Barein um forliðna helgi urðu þeir í aðeins níunda og tíunda sæti í mark, meira en hálfri mínútu á eftir sigurvegara mótsins, Lewis Hamilton hjá Mercedes.

Domenicali tók við af Jean Todt árið 2008 en hann starfaði áður innan fyrirtækisins, í stjórnunarstarfi og var starfsmannastjóri um skeið. Fyrsta árið hans á liðsstjórastóli vann Ferrari titil bílsmiða, en síðan ekki söguna meir. Litlu munaði 2008 að Felipe Massa yrði  heimsmeistari ökumanna það ár.

Þá var Alonso í keppni um titil ökumanna alveg fram í síðasta mót 2010 og 2012 og seinna árið háði Ferrari slag um bílsmiðatitilinn við Red Bull en allir þessir titlar runnu liðinu úr greipum. Þá mun vega þungt í því að Domenicali var tæpast orðið vært á liðsstjórastóli að erkifjendurnir frá Mercedes hafa drottnað það sem af er vertíð - sem útleggst sem svo að þýski bílsmiðurinn standi þeim ítalska framar í a.m.k. véltækni sem stendur. 

Stefano Domenicali.
Stefano Domenicali. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert