Útskúfun Ricciardo staðfest

Daniel Ricciardo á leið til annars sætis í heimakappakstri sínum …
Daniel Ricciardo á leið til annars sætis í heimakappakstri sínum í Melbourne. mbl.is/afp

Vonir Daniel Ricciardo hjá Red Bull um að endurheimta annað sætið í ástralska kappkastrinum fóru út um þúfur í morgun.

Það var niðurstaða áfrýjunardómstóls Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) sem tók fyrir áfrýjun á útskúfun hans úr kappakstrinum í Melbourne.

Málið snerist um bensínstraum í keppnisbíl hans en flæði bensíns til vélarinnar reyndist hvað eftir annað umfram leyfileg mörk. Varð liðið ekki við ítrekuðum ábendingum þess efnis frá dómurum mótsins meðan á kappakstrinum stóð.

Stjórnendur Red Bull sögðu flæðimælirinn í bíl Ricciardo hafa verið misvísandi og ónákvæman á æfingum og hefðu þeir því brúkað eigin mæli í staðinn í keppninni.

Fyrir réttinum í gær sótti lögmaður Mercedesliðsins það mjög hart að Red Bull yrði refsað og útskúfun Ricciardo staðfest. Auk þess voru fulltrúar Lotus, McLaren, Force India og Williams viðstaddir dómhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert