Alonso á toppnum á fyrstu æfingu

Fernando Alonso (nær) og Nico Rosberg í návígi á æfingunni …
Fernando Alonso (nær) og Nico Rosberg í návígi á æfingunni í Sjanghæ í morgun. mbl.is/afp

Eftir drottnun Mercedes á öllum æfingum, tímatökum og keppni í fyrstu þremur mótum ársins var það óvenjuleg sjón að sjá Fernando Alonso hjá Ferrari í efsta sæti að lokinni fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Sjanghæ í Kína í morgun.

Í öðru sæti en tæplega 0,4 sekúndum lengur í ferðum varð Nico Rosberg á Mercedes og  Daniel Ricciardo hjá Red Bull varð þriðji 0,9 sekúndum á eftir Alonso.

Svalt var í veðri í Sjanghæ og þegar þriðjungur æfingarinnar var af staðinn settist Alonso í toppsæti lista yfir hröðustu hringi og hélt því til loka, eða í klukkustund. Æfingin var engin dans á rósum fyrir liðsfélaga hans, Kimi Räikkönen. Tæknilega bilanir komu fram í bílnum sem var nær alla æfinguna inn í bílskúr til viðgerðar. Gat Räikkönen aðeins ekið einn úthring og setti engan tíma, sá eini á æfingunni sem var í þeirri stöðu.

McLarenmennirnir Jenson Button og Kevin Magnussen urðu í fjórða og sjötta sæti, upp á milli þeirra komst Nico Hülkenberg á Force India. Frakkinn Jean-Eric Vergne hjá Toro Rosso varð sjöundi,  Lewis Hamilton hjá Mercedes áttundi, Sebastian Vettel hjá Red Bull níundi og tíunda besta tímanum náði Felipe Massa á Williams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert