Ricciardo fljótastur í bleytunni

Daniel Ricciardo (aftar) og Daniil Kvyat á æfingunni Sjanghæ í …
Daniel Ricciardo (aftar) og Daniil Kvyat á æfingunni Sjanghæ í morgun. mbl.is/afp

Daniel Ricciardo hjá Red Bull ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Sjanghæ í Kína í morgun. Rigning setti strik í reikninginn og úrslitin frábrugðin því sem verið hefur því annar varð Felipe Massa á Williams og þriðji Romain Grosjean hjá Lotus.

Í næstu þremur sætum urðu Nico Hülkenberg hjá Force India, Kimi Räikkönen hjá Ferrari og Pastor Maldonado hjá Lotus.

Í sætum sjö til tíu urðu svo Daniil Kvyat hjá Toro Rosso, Valtteri Bottas hjá Williams, Jenson Button hjá McLaren og Sergio Perez hjá Force India.

Ökumenn spöruðu aksturinn mjög vegna aðstæðna, óku flestir frá fjórum hringjum upp í átta. Hvorugur ökumanna Mercedes reyndi við tímahring, heldur ekki Fernando Alonso hjá Ferrari og Kevin Magnussen hjá McLaren. Sebastian Vettel hjá Red Bull setti aðeins ellefta besta tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert