Gírkassinn rændi Grosjean stigum

Grosjean hættur keppni í Sjanghæ vegna gírkassabilunar.
Grosjean hættur keppni í Sjanghæ vegna gírkassabilunar.

Franski ökumaðurinn Romain Grosjean hjá Lotus virtist á góðri siglingu í hópi tíu fremstu í kínverska kappakstrinum og á leið til fyrstu stiga liðsins í ár.

En þegar síst skyldi brást bíllinn Grosjean með þeim afleiðingum að hann neyddist til að hætta keppni. Ástæðan bilun í gírkassa. Fyrst hvarf fjórði gírinn og þegar fleiri brugðust nokkrum hringjum seinna var sæng hans útreidd.

Fram að því hafði Grosjean meðal annars átt í keppni við sinn gamla liðsfélaga Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við eigum við bilun af þessu tagi að stríða svo við verðum að átta okkur á orsökunum. Fram að þessu hafði þetta verið skemmtilegur kappakstur og ég að slást um níunda sætið og þar með stig. Eru það góðar framfarir frá fyrri mótum,“ sagði Grosjean að keppni lokinni.

Liðsfélagi hans Pastor Maldonado vann sig jafnt og þétt fram á við og endaði í fjórtánda sæti. Hann hóf keppni af 22. og síðasta rásstað  eftir að hafa misst af tímatökunni í gær vegna vélarbilunar. Með góðri ræsingu vann Maldonado sig fram úr fjórum bílum á fyrsta beina kaflanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert