Misskilningur olli hunsun

Sebastian Vettel á undan Daniel Ricciardo í Sjanghæ.
Sebastian Vettel á undan Daniel Ricciardo í Sjanghæ. mbl.is/afp

Sebastian Vettel segir að misskilningur hafi valdið því að hann neitaði í fyrstu að hleypa liðsfélaga sínum Daniel Ricciardo fram úr eins og krafist var af honum af stjórnborði Red Bull liðsins í Sjanghæ.

Vettel segist ekki hafa áttað sig á því að herfræði þeirra var ólík.

Það var á 24. hring sem Ricciardo dró Vettel uppi og var sá síðarnefndi beðinn um að hleypa honum fram úr. Því svaraði Vettel ólundarlega með því að spyrja á hvernig dekkjum Ricciardo væri. Er vélfræðingurinn Guillaum Roquelin sagði að þeir væru á sömu dekkjagerðinni en Ricciardo hefði stoppað þremur hringjum seinna en hann hraut af vörum Vettels, „óheppni“ sem túlkað var sem hann ætlaði engu að verða við beiðninni.

Stuttu seinna var Vettel aftur kallaður upp af stjórnborðinu og honum sagt að þeir Ricciardo væru hvor á sinni herfræðinni. Sá síðarnefndi var þá farinn að þjarma að heimsmeistaranum og smeygði sér inn fyrir og fram úr í fyrstu beygju hringsins. Loks þá gaf Vettel sig, eftir að hafa freistast til að verja stöðu sína í nokkra hringi. 

Vettel segir það hafa verið létt verk að hleypa Ricciardo fram úr þegar útskýringar á herfræðinni lágu fyrir. „Það var engin ástæða lengur til að halda aftur af honum,“ svaraði Vettel er hann var spurður hvort hann hafi í raun vikið fyrir Ricciardo.

„Hann var mun hraðskreiðari og þegar mér var sagt að við værum hvor á sinni herfræðinni ákvað ég að víkja. Ég var farinn að átta mig á því að ég fengi ekki haldið aftur af honum, ég var ekki nógu hraðskreiður. Forgangsmál liðsins á þessu stigi var að knýja Daniel áfram og gera Fernando [Alonso hjá Ferrari] lífið leitt, sem að vísu gekk ekki eftir“.

Vettel varð 25 sekúndum lengur að klára kappaksturinn en Ricciardo. Þetta er annað mótið í röð sem Vettel er beðinn að víkja fyrir hinum nýja liðsfélaga sínum. „Ég held það sé gott að Daniel gengur vel að eiga við bílinn og nær öllu út úr honum. Það er gott viðmið fyrir mig. Sem stendur er bilið milli okkar stórt og ég þarf að vinna í því. Daniel sýnir að það býr meira í bílnum en ég næ út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert