Rosberg á ráspól, Hamilton síðastur

Svekktur gengur Lewis Hamilton frá biluðum og brennandi bíl sínum …
Svekktur gengur Lewis Hamilton frá biluðum og brennandi bíl sínum í Búdapest,. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að hreppa ráspól ungverska kappakstursins eftir jafna og spennandi keppni við Sebastian Vettel hjá Red Bull og Valtteri Bottas hjá Williams.  Ólánið eltir Lewis Hamilton því bíll hans fuðraði upp á fyrsta hring og hefur hann því keppni aftastur.

Tímatakan var að þessu leyti afar dramatísk og Hamilton duldi ekki vonbrigði sín er hann sá vonir sínar um ráspól í Búdapest brenna á báli. Líklega hafa vonir hans um fimmta mótssigurinn í Hungaroring einnig dvínað verulega. Hann hafði ekið hraðast á öllum æfingum helgarinnar þremur og var talinn sigurstranglegur bæði í tímatökunni og kappakstrinum.

Annað mótið í röð gengur honum allt í mót því í Hockenheim fyrir viku komst hann ekki í lokalotu tímatökunnar vegna bremsubilunar.   Er brottfallið í dag því áfall fyrir hann vegna keppni þeirra Rosberg um heimsmeistaratitil ökumanna.

Í lokalotunni í dag var tímaklukkan tæpast farin að mæla ökumenn er Kevin Magnussen hjá McLaren flaug út úr brautinni við fyrstu beygju vegna bleytu og grófst í öryggisvegg. Var tímatakan stöðvuð meðan veggurinn var lagaður.

Rigning fyrir lokalotuna gerði ökumönnum erfitt fyrir og átti Rosberg fullt í fangi með þá Vettel og Rosberg og vann ekki pólinn fyrr en köflótta flaggið var fallið og allir aðrir keppendur búnir með sínar tilraunir. Að þessu leyti tímasetti hann lokatilraun sína vel; þegar aðstæður voru aftur orðnar sem bestar.

Með árangrinum í Búdapest hefur Rosberg unnið ráspól í þremur mótum í röð; í Silverstone, Hockenheim og Hungaroring.

Räikkönen sleginn út í fyrstu lotu

Pastor Maldonado hjá Lotus varð að leggja bíl sínum á fyrsta hring í fyrstu lotu tímatökunnar vegna tæknilegrar bilunar og hefur því keppni á morgun við hlið Hamiltons.

Önnur stórtíðindi úr tímatökunni er herfilegt herfræðiklúður Ferrariliðsins sem leiddi til þess að Kimi Räikkönen féll úr leik í fyrstu umferð og hefur keppni af 17. rásstað, innan um botnbílana. Sá sem sló hann út var varamaður Ferrari, Jules Bianchi hjá Marussia.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Ferrari kaus að spara aksturinn en Räikkönen sleppti tímatilraun á mýkri dekkjunum, líklegast til að spara þau fyrir kappakstur morgundagsins eða fyrir aðra og þriðju lotu tímatökunnar. Gömul speki segir að dýrt geti verið að spara og má heimfæra það upp á Ferrariliðið að þessu sinni.

Lewis Hamilton var svekktur eftir að vonir hans um ráspól …
Lewis Hamilton var svekktur eftir að vonir hans um ráspól brunnu á báli í Búdapest. mbl.is/afp
Þrír fyrstu í tímatökunum í Búdapest (f.v.) Vettel, Rosberg og …
Þrír fyrstu í tímatökunum í Búdapest (f.v.) Vettel, Rosberg og Bottas. mbl.is/afp
Sebastian Vettel var öflugur í tímatökunni í Búdapest og ekki …
Sebastian Vettel var öflugur í tímatökunni í Búdapest og ekki fyrr en á síðustu stundu sem Rosberg velti honum af ráspól. mbl.is/afp
Nico Rosberg (t.h.) og Sebastian Vettel eftir tímatökuna í Búdapest.
Nico Rosberg (t.h.) og Sebastian Vettel eftir tímatökuna í Búdapest. mbl.is/afp
Lewis Hamilton yfirgefur logandi Mercedesbílinn í Búdapest.
Lewis Hamilton yfirgefur logandi Mercedesbílinn í Búdapest. mbl.is/afp
Brautarverðir dæla slökkviefni á Mercedesbíl Lewis Hamilton eftir að kviknaði …
Brautarverðir dæla slökkviefni á Mercedesbíl Lewis Hamilton eftir að kviknaði í honum í Búdapest í dag. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert