Räikkönen leist ekki á herfræði Ferrari

Kimi Räikkönen var ósáttur við dekkjataktík Ferrari.
Kimi Räikkönen var ósáttur við dekkjataktík Ferrari. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen segist margsinnis hafa gert athugasemdir við dekkjataktík Ferrariliðsins í fyrstu lotu tímatökunnar í Búdapest. Þessi herfræði leiddi til afhroðs hans og liðsins.

Ferrari lagði að Räikkönen að brúka aðeins harðari dekkjagerðina í fyrstu lotunni, taldi það myndu duga vel til að komast áfram í aðra lotu. Með því myndu sparast dekk og hann standa betur að vígi varðandi kappaksturinn.

Forsenda þessarar herfræði var sú, að Lewis Hamilton hjá Mercedes og Pastor Maldonado hjá Lotus voru fallnir úr leik vegna bilana.

Vogun vinnur, vogun tapar og á því fékk Ferrari að kenna sem sat sneypt uppi með Räikkönen í 17. sæti og þar með úr leik. Sveið meira í sárinu þar sem það var Jules Bianchi á Marussia sem sló Ferrari út en hann er liðsmaður ökumannaakademíu Ferrari og líklegur keppinautur fyrir liðið í framtíðinni.

Fernando Alonso ók sömuleiðis aðeins á harðari dekkjunum og komst áfram. Bianchi bætti sig vel á mýkri dekkjunum og skaust 0,064 sekúndum fram úr Räikkönen. Þegar þar var komið hafði finnski ökumaðurinn ekki lengur svigrúm til að svara og gera aðra tímatilraun.

„Planið var að fara út en liðið sagði að við værum hólpnir. Ég spurði nokkrum sinnum um þetta hvort það gæti verið öruggt. Niðurstöðuna þekkið þið,“ sagði Räikkönen við blaðamenn.

Räikkönen ók úr 17. sæti í það sjötta í Búdapest.
Räikkönen ók úr 17. sæti í það sjötta í Búdapest. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert