Rosasigur Ricciardo

Daniel Ricciardo hjá Red Bull var í þessu að vinna ungverska kappaksturinn og þessum sigri gleymir hann örugglega aldrei eftir risaslag við Lewis Hamilton og Fernando Alonso síðustu 10 hringina. Tók hann fram úr báðum á nætsíðasta hring og vann örugglega.

Alonso sýndi færni sína með því að halda þeim Hamilton og Ricciardo fyrir aftan sig hring eftir hring á mun verri dekkjum. En eftir að Ricciardo komst fram úr Hamilton með nýrri dekk undir bíl sínum var Alonso tiltölulega auðveld bráð. Þetta var samt besta frammistaða hans á árinu; hafði áður náð þriðja sætinu í Sjanghæ í Kína í apríl.

Á síðustu 10 hringjunum sótti Nico Rosberg án afláts og dró hratt á þessa þrjá en þótt hann gerði atlögur á tveimur síðustu hringjunum tókst liðsfélaga hans, Hamilton, að halda þriðja sæti.

Óhætt er að segja að þetta hafi verið mest spennandi kappakstur ársins með þremur ökumönnum að slást um sigur fram á síðasta hring. Tilþrif mikil allan tímann en öryggisbíll gerði nokkrum ökumönnum skráveifu; tapaði Rosberg mest á útkomu hans. Fremstu fjórir skutust ekki strax inn til dekkjaskipta heldur eftir að hafa ekið hring á eftir öryggisbílnum og stokkaðist því röð ökumanna upp áður en keppnin hófst að nýju. Bitnaði það meðal annars á Valtteri Bottas hjá Williams sem á svipstundu hvarf úr keppninni um frysta sætið.

Heilladísirnar með Hamilton

Má með sanni segja að enginn hafi hagnast jafn mikið á útkomu öryggisbílsins og Hamilton sem hóf keppni í 21. sæti úr bílskúrareininni. Gengu heilladísirnar honum í hag í Búdapest. 

Rosberg hóf keppni á ráspól og þótti útlit fyrir að hann gæti í fyrsta sinn á ferlinum unnið tvö mót í röð, eftir sigurinn í Hockenheim fyrir viku. Og komist í fyrsta sinn á ferlinum á verðlaunapall í Hungaroring. Hvorugt gekk eftir en hann lauk keppni í fjórða sæti og heldur því áfram forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Þetta er annar sigur Ricciardo á vertíðinni og fagnaði hann fölskvalaust á innhring og í heimahöfn að keppni lokinni. Fyrsta sigur sinn - jómfrúarsigur í formúlu-1 - vann hann í Montreal í Kanada 8. júní.

Bilið minnkar í 9 stig

Staðan í keppninni um titil ökumanna eftir kappaksturinn í Búdapest er sú, að Rosberg er efstur með 202 stig en Hamilton tókst að minnka muninn úr 14 stigum í 11 þar sem hann er með 191 stig. Þriðji er Ricciardo með 131 stig, fjórði Alonso með 115 stig, fimmti Valtteri Bottas hjá Williams með 95 og sjötti Sebastian Vettel með 88.

Í keppninni um titil liðanna er Mercedes með 393 stig, Red Bull með 219, Ferrari komst aftur upp fyrir Williams og er með 142 og Williams 135. Aðeins einu stigi munar á Force India og McLaren, 98-97, Toro Rosso er með 17 stig, Marussia 2 en Sauber og Caterham ekki neitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert