Bottas orðaður við McLaren

Bottas sigri hrósandi á verðlaunapallinum í Austurríki.
Bottas sigri hrósandi á verðlaunapallinum í Austurríki.

Finnski ökumaðurinn Valtteri Bottas er orðaður við McLarenliðið á næsta ári og staðfestir helsti ráðgjafi hans, Mika Häkkinen, að rætt sé um slíkt.

Häkkinen er maðurinn á bak við ráðningu Bottas til Williamsliðsins fyrir árið 2013, en árið áður var hann reynsluökumaður liðsins.

Eftir að hafa komist þrisvar á verðlaunapall í júní og júlí og verið reglulega meðal þriggja fremstu í tímatökum er Bottas kominn á þvílíkt blúss að honum er spáð björt framtíð í formúlu-1.

„Sem stendur eru heitu nöfnin tvö í formúlunni Bottas og [Daniel] Ricciardo,“ segir Häkkinen í dálki sem hann skrifar fyrir tímaritið Hermes.

Þegar hann hætti sjálfur keppni gaf Häkkinen McLarenliðinu svohljóðandi ráð svo frægt varð: „Viljir þú vinna skaltu ráða Finna“ og skírskotaði hann þar til Kimi Räikkönen sem tók við af landa sínum hjá McLaren.

Häkkinen viðurkennir að hafa heyrt kvíslað um hugsanlega McLarenför Bottas. Þar sé áhugi á honum en liðið freistar þess að hafa á sem öflugustu pari ökumanna að halda þegar það mætir til leiks með Hondavél á næsta ári.

David Coulthard, fyrrverandi liðsfélagi Häkkinen hjá McLaren, er einnig hrifinn af Bottas sem minnir hann á gamla félaga sinn. Við breska blaðið Daily Telegraph kemst hann svo að orði um Bottas: „Hann hefur komist þrisvar á verðlaunapall og er betri en afar öflugur liðsfélagi hans, Felipe Massa. Valtteri virðist líkur Mika, er algjörlega laus við tilfinningasemi sem er styrkur í hita leiksins í formúlu-1.“

Valtteri Bottas og Mika Häkkinen (t.h.).
Valtteri Bottas og Mika Häkkinen (t.h.).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert