Chilton keppir eftir allt

Max Chilton keppir eftir allt í Spa en ekki Alexander …
Max Chilton keppir eftir allt í Spa en ekki Alexander Rossi sem keypt hafði sætið. mbl.is/afp

Veður geta skipast fljótt í formúlu-1 og það má segja um furðulegar ökumannasviptingar hjá Marussialiðinu.

Í gær tilkynnti Marussia að bandaríski ökumaðurinn Alexander Rossi myndi leysa Max Chilton af hólmi í belgíska kappakstrinum, sem fram fer um helgina í Spa Francorchamps.

Þetta var sagt gert til þess að „leysa samningamál“, eins og það var orðað. Það reyndist þvættingur. Umboðsfyrirtæki Chilton sendi nefnilega í framhaldinu frá sér tilkynningu þar sem sagði að enski ökumaðurinn hefði gefið sætið eftir svo Marussia gæti aflað sér fjár með því að selja það öðrum ökumanni fyrir kappaksturinn í Spa.

Þar með var mál þetta orðið heldur vandræðaleg fyrir Marussia sem snerist síðan hugur í máli þessu. Í morgun tók liðið u-beygju og ákvað að Chilton skyldi keppa eftir allt. Féllust eftirlitsdómarar kappakstursins á þá ráðstöfun. Tekur Chilton því við bílnum fyrir seinni æfinguna í dag en Rossi sér um aksturinn á fyrri æfingunni, fyrir hádegið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert