Hamilton í toppsætið

Lewis Hamilton á ferð í Spa í dag.
Lewis Hamilton á ferð í Spa í dag. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes tók við toppsætinu á seinni æfingu dagsins í Spa Francorchamps og var vel á undan liðsfélaga sínum Nico Rosberg sem ók næsthraðast. Eins og á fyrri æfingunni setti Fernando Alonso hjá Ferrari þriðja besta tímann.

Eins og á fyrri æfingunni var Alonso rétt á eftir seinni Mercedesbílnum, eða ríflega 0,1 sekúndu.

Ökumenn Williams létu að sér kveða, Felipe Massa setti fjórða besta tímann og Valtteri Bottas þann sjötta besta, en á milli þeirra varð Jenson Button hjá McLaren.

Nýliðinn Daniil Kvyat hjá Toro Rosso varð í sjöunda sæti á lista yfir hröðustu hringi,  Daniel Ricciardo hjá Red Bull í áttunda, Kevin Magnussen í því níunda og Nico Hülkenberg hjá Force India í því tíunda.

Sebastian Vettel ók ekkert vegna bilana sem urðu í pústkerfi bíls hans á fyrri æfingunni er leidi til innri skemmda í bílnum. Skipta varð um vél og ýmsa íhluti aðra og vannst liðinu ekki tími til að klára það í tæka tíð.

Kimi Räikkönen endaði í 16. sæti en hann kvartaði undan slæmri rásfestu afturdekkjanna á æfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert