Talstöðvarsamtöl verulega takmörkuð

Minna verður um talstöðvarsamskipti milli bíls og stjórnborðs héðan í …
Minna verður um talstöðvarsamskipti milli bíls og stjórnborðs héðan í frá. mbl.is/afp

Frá og með næsta kappakstri, í Singapúr, verða samskipti ökumanns og stjórnborðs verðulega skert og þröngar skorður settar við upplýsingagjöf liðsstjórnenda til bílstjórans.

„Engin samtöl mega innihalda upplýsingar er varða afköst bíls eða getu ökumanns,“ segir Charlie Whiting, tæknistjóri FIA. Til að koma í veg fyrir að liðin reyni að fara framhjá reglunni minnti hann liðin á að stranglega sé bannað að senda tölvugögn frá stjórnborði í bílinn.

Leyfilegt verður að kalla ökumann inn að bílskúr til dekkjaskipta. Hins vegar verður bannað héðan í frá að vara bílstjórann við því að hann hafi gengið um of á bensínbirgðir sínar og eigi á hættu að komast ekki í mark af þeim sökum. Hann verði bara að fylgjast með notkuninni á mæli á stjórnborði eins og ökumenn venjulegra bíla geri.

Sömuleiðis verður bannað að upplýsa ökumann um ástand bremsubúnaðar eða dekkja, t.d. að hægfara loftleki sé úr þeim.  Loks verða dulbúin fyrirmæli eins og SOC 3, MIX 5, FUEL 2, sem heyrast á stundum í talstöðvum, alveg bönnuð.  

Upplýsingar um umferð í tímatökum verður í lagi að gefa og sömuleiðis fyrirmæli á borð við hvort reynt skuli að taka framúr bíl eða ekki. 

Á upphitunarhring fyrir kappakstur verður og héðan í frá bannað að miðla til ökumanns upplýsingu um hita í bremsum og dekkjum, gögnum til að samhraða gírkassann og hvernig upphita skuli dekkin á leið út á ráslínuna. 

Þetta hefur Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) ákveðið og segir tíma til kominn að fara eftir reglum formúlunnar sem kveði skýrt á um að það sé ökumannsins að keyra bílinn einn og óstuddur en ekki stjórnborðsins. 

Charlie Whiting, tæknistjóri FIA, segir að þessari ákvörðun verði fylgt stíft eftir. Eftirlitsdómararnir muni fylgjast með talstöðvum liðanna og öll samtöl tekin upp og yfirfarin eftir mót ef þurfa þykir. 

Vel er fyglst með gangi mála á stjórnborði Red Bull …
Vel er fyglst með gangi mála á stjórnborði Red Bull í Sjanghæ. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert