Ross Brawn: aldrei að segja aldrei

Ross Brawn við stjórnborð Mercedesliðsins.
Ross Brawn við stjórnborð Mercedesliðsins.

Ross Brawn, fyrrverandi aðalstjórnandi Mercedesliðsins og þar áður tæknistjóri Ferrari, ítrekar í dag að hann sé ekki að leita að starfi í formúlu-1. Hann vill þó ekki útiloka endurkomi bjóðist gott starf.

Í byrjun mánaðarins sagði Ferraristjórinn nýi, Marco Mattiacci, að „allir vildu sjá Ross aftur hjá Ferrari“, en hann var ein aðalsprautan og höfundur velgengni liðsins á fyrsta tug aldarinnar.

Frá því tilkynnt var að Luca di Montezemolo væri á förum sem forstjóri Ferrari kviknuðu aftur vangaveltur um Brawn gæti fundið starf í uppstokkun fyrirtækisins. Heimsótti hann höfuðstöðvarnar í Maranello fyrr í sumar og heilsaði upp á gamla samstarfsmenn.

Í samtali við þýska vikuritið Auto Motor und Sport, segir Brawn: „Ég er ekkert að pæla í hlutverki hjá Ferrari eða einhvers staðar annars staðar. Heimsóknin til Maranello í maí var af persónulegum ástæðum eingöngu. Við ræddum nokkuð saman um hvað ef, en þó ekki í neinni alvöru. Ég er ekki í samskiptum við Ferrari og ekki að leita mér að starfi í formúlu-1."

Svari þessu var fylgt eftir og Brawn knúinn til frekari svara. Sagði hann þá: „Maður skyldi aldrei segja aldrei, maður veit aldrei hvað gæti sprottið upp.“

Frá Ferrari fór Brawn til Hondaliðsins og eignaðist það eftir eina vertíð. Upp frá því var það kennt við hann en síðan seldi Brawn liðið Mercedes. Stjórnaði hann því til síðustu veretíðarloka,  2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert