Schumacher stóð í vegi fyrir Montoya

Juan Pablo Montoya fylgist með tímatökum fyrir IndyCar kappakstur í …
Juan Pablo Montoya fylgist með tímatökum fyrir IndyCar kappakstur í Fontana í Kaliforníu í lok ágúst. mbl.is/afp

Juan Pablo Montoya segir að Michael Schumacher hafi komið í veg fyrir að hann réðist til Ferrari sem ökumaður eftir að hann hætti keppni með McLaren.

Montoya var gestur í Monza um helgina og spókaði sig um á bílskúrasvæðinu og heilsaði upp á gamla vini og samstarfsmenn.

Hann keppir nú í systurkeppni formúlunnar í Bandaríkjunum, IndyCar Series, eftir nokkurra ára keppni í NASCAR, vinsælustu akstursíþrótt Bandaríkjanna.

Við þetta tækifæri í Monza ljóstraði Montoya því upp að þeir Schumacher hafi ekki verið neinir vinir og heimsmeistarinn margfaldi hafi sett fótinn fyrir ráðningu hans til Ferrari fyrir um áratug.

Afar sjaldgæft er að Montoya láti sjá sig á formúlukappakstri en hann segist engan kala betra til íþróttarinnar sem hann yfirgaf og sneri baki við svo skyndilega 2006. „Ég hef séð svo marga gamla vini hérna,“ sagði hann við ítalska tímaritið Autosprint í Monza. „Það var öðruvísi þegar maður var hér í vinnu.“

Blaðið spurði hann út í sögusagnir þess efnis frá sínum tíma um að þegar hann fór frá Williams til McLaren hafi hann líka gælt við að ganga til liðs við Ferrari.

„Það var aldrei mögulegt. Michael Schumacher var þar fyrir í fleti og hann hataði mig. En mér þykir virkilega leitt hvernig komið er fyrir honum nú - ég bara vona að bati haldi áfram.“

Montoya sagðist ekki hafa myndað sér skoðanir á núverandi keppnisbílum í samanburði við V10-véla skrímslin sem hann ók til sjö sigra á árunum 2001 til 2006. „Þeir virðast enn erfiðir viðfangs, ögrandi. Þeir komast ekki eins hratt, en það er vegna dekkjanna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert