Hamilton fremstur á seinni æfingunni

Lewis Hamilton hjá Mercedes ók hraðast á seinni æfingunni í Singapúr sem er nýlokið. Fernando Alonso hjá Ferrari var 0,1 sekúndu lengur með hringinn en hann ók hraðast á fyrri æfingunni.

Þriðja besta tímanum á seinni æfingunni náði Daniel Ricciardo hjá Red Bull, en hann var 167 þúsundustu úr sekúndu frá tíma Alonso. 

Kimi Räikkönen hjá Ferrari vegnaði betur en á fyrri æfingunni því hann setti fjórða besta tímann á þeirri seinni. Var þó 0,4 sekúndum frá tíma liðsfélaga síns, Alonso. Sebastian Vettel hjá Red Bull var 10 þúsundustu úr sekúndu lengur í förum en Räikkönen í fimmta sæti.

Í sætum sex til tíu á lista yfir hröðustu hringi urðu í þessari röð: Kevin Magnussen og Jenson Button hjá McLaren, Sergio Perez og Nico Hülkenberg hjá Force India og loks Daniil Kvyat hjá Toro Rosso.

Eins og á fyrri æfingunni var ökumenn Williams ekki að finna meðal tíu fremstu. Settu Felipe Massa og Valtteri Bottas aðeins sautjánda og átjánda besta tímann. Þá vakti athygli að Nico Rosberg hjá Mercedes var einnig utan 10 fremstu. Setti hann aðeins 13. besta tímann þrátt fyrir að aka einna flesta hringi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert