Hamilton með himinskautum

Kappaksturinn í Marina Bay borgarbrautinni í Singapúr var stöðvaður eftir …
Kappaksturinn í Marina Bay borgarbrautinni í Singapúr var stöðvaður eftir tvær klukkustundir. mbl.is/afp

Engu líkara var en Lewis Hamilton  hjá Mercedes væri í guða tölu, slíkir voru yfirburðir hans í kappakstrinum í Singapúr. Rétt eins og hann sigldi með himinskautum en keppinautarnir verulega neðar á himnafestingunni.

Með sigrinum tók  Hamilton að nýju forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna þar sem liðsfélagi hans Nico Rosberg og eini keppinautur féll úr leik vegna bilaðs gírkassa á 13. hring. Rosberg hafði haldið forystunni allt frá í maí en nú munar á þeim þremur stigum, 241:238.

Sigurinn er sá sjöundi sem Hamilton vinnur á vertíðinni en Rosberg hefur fjórum sinnum farið með sigur af hólmi. Hefur Hamilton aldrei áður unnið jafn mörg mót á vertíð og þar sem fimm mót eru enn eftir til vertíðarloka gæti hann átt eftir að bæta sigrum í sarpinn.

Í öðru sæti í mark varð Sebastian Vettel hjá Red Bull og er það besti árangur hans í keppni í ár. Hann hafði forystu í einn hring er Hamilton skaust inn undir lokin til dekkjaskipta og er það í fyrsta sinn frá í fyrra að Vettel leiðir kappakstur.

Þriðji varð liðsfélagi Vettels, Daniel Ricciardo og fjórði Fernando Alonso hjá Ferrari. Þessir þrír voru í hnapp síðustu 15 hringina en ástand dekkja leyfði þeim Alonso og Ricciardo aldrei að reyna framúrakstur.

Keppni var mikil og síbreytileg um önnur stigasæti en hin fjögur fyrstu. Sýndi franski ökumaðurinn Jean-Eric Vergne snilldar tilþrif á lokahringjunum og tók fram úr hverjum ökumanninum á fætur öðrum. Tókst honum með því að upphefja refsingu sem hann hlaut, en bæta skyldi fimm sekúndum við aksturstímann vegna ólögmæts framúraksturs. Var hann á endanum meira en fimm sekúndum á undan næsta manni og hélt því sjötta sætinu í mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert