Grosjean færist aftur um 20 sæti

Romain Grosjean í Yas Marina brautinni í Abu Dhabi í …
Romain Grosjean í Yas Marina brautinni í Abu Dhabi í dag. mbl.is/afp

Romain Grosjean hefur verið úrskurðað tæknivíti vegna vélarskipta í Lotusbíl hans í Abu Dhabi. Það hljóðar upp á 20 sæta afturfærslu á rásmarkinu.

Vélin er sú sjötta sem sett er í bíl Grosjean á árinu en einnig var settur nýr hverfilblásari og búnaður (MGU-H) er endurheimtir bremsuorku sem ökumenn geta svo endurnýtt í akstrinum, ekki síst á ferð út úr beygjum.

Fyrir vélarskiptin fær Grosjean tíu sæta afturfærslu og fimm fyrir hvorn hinna vélbúnaðarhlutanna. Miðað við æfingarnar í dag er líklegt að Grosjean verði fremur aftarlega í tímatökunum og færist því ekki um heil 20 sæti, en til þess yrði hann að vinna tímatökurnar.

Eftirlitsmenn kappakstursins hafa ákveðið að Grosjean sæti tímavíti fyrir þau sæti sem hann færist ekki aftur um. Verði þau fimm eða færri bætist 5 sekúndur við aksturstíma hans. Verði þau sex til tíu bætist 10 sekúndur við. Og vanti 11-20 sæti á fulla afturfærslu að tímatöku lokinni þarf hann að aka gegnum bílskúrareinina í refsiskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert