Red Bull rekið úr tímatökunni

Sebastian Vettel í tímatökunni í Abu Dhabi í dag.
Sebastian Vettel í tímatökunni í Abu Dhabi í dag. mbl.is/afp

Árangur ökumanna Red Bull í tímatökunni í Abu Dhabi í dag hefur verið strikaður út þar sem framvængur bíla þeirra Sebastian Vettels og Daniels Ricciardo reyndist ólögmætur.

Eftir tímatökuna benti einn af tæknifulltrúum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA)  eftirlitsdómurum kappakstursins á, að hugsanlega væri eitthvað bogið við framvæng bíla Red Bull. 

Framkvæmdu dómararnir síðan sjálfstæða rannsókn á vængjunum og niðurstaða þeirra var að þeir væru ólögmætir. Þeir hafi verið hannaðir með þeim hætti að flipar á vængnum svignuðu á mikilli ferð og ykju þannig afköst bílsins.

Stjórnendur Red Bull sögðust taka niðurstöðunni en kvörtuðu undan því að vera teknir út úr hópnum og refsað einum. Héldu þeir fram, að önnur lið beittu samskonar brellum með framvængi sína.

Vettel og Ricciardo urðu í fimmta og sjötta sæti í tímatökunni. Þeir fá að taka þátt í kappakstrinum á morgun en hefja keppni aftastir. í 19. og 20. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert