Bíll Red Bull enn ósmíðaður

Red Bull á nokkuð verk óunnið við bílsmíðina.
Red Bull á nokkuð verk óunnið við bílsmíðina. mbl.is/afp

Red Bull stjórinn Christian Horner játar að lið hans eigi enn eftir að klára smíði fyrsta eintaksins af keppnisbíl komandi vertíðar. Mikið verk sé óunnið en bílprófanir vetrarins hefjast í næstu viku í Jerez á Spáni.

Red Bull ákvað að taka sér sem lengstan mögulegan þróunartíma fyrir 2015-bílinn í þeim tilgangi að brúa bilið í Mercedesliðið sem hafði mikið forskot á hin liðin í fyrra.

„Við höfum ekki klárað smíði hans,“ sagði Horner við blaðamenn í höfuðstöðvum Red Bull í Milton Keynes  í Englandi. Var samsetningu bílsins ólokið í gær, þegar aðeins fimm dagar eru til fyrsta reynsluakstursdagsins.

„Það er verið að smíða hluti hans á fullu, framleiðslutíminn í ár er líklega sá stysti í áratug. Það er ótrúlegt hvað verkinu hefur miðað hratt fram síðustu daga en talsvert er óunnið fram að sunnudeginum kemur,“ segir Horner. Og bætir við að bíllinn verði klár til aksturs komandi mánudag.

Fyrsta bílprófanalota Red Bull í fyrra gekk með ósköpum. Náðu ökumenn liðsins aðeins um fjórum hringjum á fjórum dögum í Jerez og bíllinn drap ýmist á sér úti í brautinni eða í honum kviknaði eldur. 

Horner segir að gangur mála við bílþróunina í vetur hafi verið mun jákvæðari. 

Fyrsta bílprófanalota vetrarins fer fram í Jerez 1. til 4. febrúar. Síðan liggur leiðin til Barcelona til annarrar fjögurra daga lotu 19. til 22. febrúar. Þar fer svo lokalotan fram dagana 26. febrúar til 1. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert