Mercedes æfði í Silverstone

Mercedesbíllinn nýi á ferð í Silverstone í dag.
Mercedesbíllinn nýi á ferð í Silverstone í dag.

Mercedesliðið prófaði 2015-bíl sinn í Silverstonebrautinni í Englandi í dag. Þar var jökulkuldi er Lewis Hamilton og Nico Rosberg skiptust á að prófa bílinn og kerfi hans.

Hamilton hóf aksturinn sem snerist um að ganga úr skugga um að einstök vél- og rafeindakerfi bílsins virkuðu sem skyldi áður en alvöru reynsluakstur hefst næstkomandi sunnudag í Jerez á Spáni.

Alls lögðu Hamilton og Rosberg að baki 18 hringi í Silverstone, eða 47,2 kílómetra en snjókoma batt endi á æfinguna.

Eins og aðrir bílar formúlunnar er trjóna Mercedesbílsins breytt frá í fyrra, í samræmi við breytingar á hönnunarforsendum keppnisbílanna. Er nefbroddurinn styttri en áður og auk trjónunnar hafa bílsmiðir Mercedes breytt hliðarbelgjum bílsins frá í fyrra, einnig vélarhlífinni auk þess sem afturendinn hefur tekið breytingum.

Það verður Rosberg sem hefur akstur bílsins í Jerez á sunnudag og ekur einnig þriðjudag en Hamilton sér um aksturinn mánudag og miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert