Sauber tekur stakkaskiptum

Sauber sýndi 2015-bíl sinn í dag og hefur hann tekið stakkaskiptum frá í fyrra, er nú blár að mestu leyti en var hvítur áður. Má segja að liðið hverfi aftur til fortíðar því fyrir áratug eða skemur var keppnisbíll Sauber himinblár.

Frumsýning Sauberins fór fram á netinu, rétt eins og átti sér stað fyrr í dag hjá Ferrari. Hinn blái litur er að hluta til kominn aftur á bíla Sauber vegna nýs aðalstyrktarfyrirtækis liðsins, brasilíska bankans Banco do Brasil.

Sauber hafnaði í tíunda sæti í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða í fyrra og átti heldur hörmulega daga á vertíðinni. Vonast liðið til að gera mun betur í ár. Áfram munu Ferrarivélar knýja bíl Sauber, sem á komandi keppnistíð verður í höndum nýrra ökumanna, brasilíska nýliðans Felipe Nasr og Svíans Marcus Ericsson sem keppti fyrir Caterham í fyrra.

Ericsson mun frumaka bílnum í Jerez á Spáni á sunnudag og Nasr tekur svo við akstrinum á mánudag.

„Keppnistíðin 2014 var svekkjandi en hún heyrir nú fortíðinni til. Við veltum okkur ekki upp úr henni heldur erum einbeitt af því sem nú tekur við. Við höfum dregið lærdóma og erum viss í okkar sök að við munum gera betur í ár,“ segir liðsstjórinn Monisha Kaltenborn.

Hún bætti við að liðið yrði að bæta sig og geta keppt reglulega um stigasæti. Forsvarsmenn Sauber segja að við þróun bílsins hafi verið áhersla lögð á að bæta getu hans í hægum beygjum, auka bremsustöðugleika og draga úr þyngd bílsins. Er 2015-bíll Sauber aðeins breiðari en forverinn og lægri yfir jörð. Afturendinn er minni og nettari og hliðarbelgirnir mjórri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert