Alonso ánægður með daginn

Fernando Alonso kveðst ánægður með framfarir sem McLaren hafi náð út úr keppnisbílnum en hann sneri aftur til starfa í dag eftir meira en mánuð frá vegna akstursóhapps.

Lagði Alonso að baki alls 45 hringi í Sepang í Malasíu í dag, í fyrsta sinn sem hann ók bílnum í rúman mánuð.

„Þetta var eins og bílprófunardagur númer tvö fyrir mig. Ég átti góðan dag í Barcelona í vetur er ég náði 63 hringjum á einum degi og í dag ók ég 45. Og ofan í kaupið var aksturinn alveg vandræðalaus í dag, sem er mikilvægur áfangi,“ sagði Alonso.

Hann sagði McLarenliðið vera að bæta loftflæðið um bílinn og öðlast meiri og betri skilnings á vélinn. „Samvinnan gengur betur og liðugar, sérhver hringur er námskeið fyrir okkur. Bíllinn virkar stöðugur og auðveldur meðfæris. Sjálfstraustið í honum eykst og hjálpar mér að knýja hann eins og frekast er unnt. Það vantaði aðeins upp á stöðugleika í bremsunum í dag en við ættum að geta ráðið bót á því fyrir morgundaginn. Mér líður frábærlega, ég naut dagsins í dag svo mjög,“ sagði Alonso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert