Renault hótar að hætta

Cyril Abiteboul, íþróttastjóri Renault.
Cyril Abiteboul, íþróttastjóri Renault. mbl.is/afp

Íþróttastjóri Renault, Cyril Abiteboul, segir að bílsmiðurinn franski gæti dregið sig úr keppni í formúlu-1. Red Bull stjórinn Christian Horner bætir við, að slíkt myndi neyða orkudrykkjarisann út úr íþróttinni líka.

Renault hefur átt erfiða tíma frá tilkomu V6-véla og hefur sambúð vélaframleiðandans við lið Red Bull stirðnað mjög sakir þess að bílar liðsins hafa staðið langt að baki keppnisbílum Mercedes.

Spurður út í orðróm þess efnis að Renault íhugaði kaup á Toro Rosso liðinu svaraði Abiteboul með því að nefna líka hugsanlega burtför úr formúlunni. „Ég get staðfest að við erum að skoða fjölda valkosta, þar á meðal að yfirgefa formúlu-1,“ sagði hann.

„Í hreinskilni sagt, ef formúla-1 er slæm fyrir orðstír Renault, ef við eigum í basli með núverandi formúlu, ef formúla-1 er ekki að skila verðmæti miðað við tilkostnaðinn og hafandi í huga að fyrir vélarframleiðanda felst engin fjárhagsleg hvatning í því að þróa og kosta vélarþróun, þá erum við að skoða dæmið.

Vitaskuld teljum við okkur alvöru þátttakanda í íþróttinni en við viljum keppa meðal bestu merkjanna og formúla-1 er góð til þess. En við verðum að skoða hvað annað er í boði, markaðurinn er opinn og við höfum getu til að ræða við fjölda aðila í fjölda greina,“ sagði Abiteboul í dag.

Horner sagði við blasa að Red Bull yrði á vonarvöl ef Renault drægi sig úr leik. „Mercedes myndi hafna því að leggja Red Bull til vélar. Og ólíklegt er að við yrðum í stöðu til að fá Ferrarivélar og því gæti svo farið að við yrðum neyddir á brott.“


 

Brottför Renault úr formúlu-1 þýddi að dagar Red Bull í …
Brottför Renault úr formúlu-1 þýddi að dagar Red Bull í íþróttinni væru taldir. mbl.is/afp
Vélarþróunin hjá Renault Sport hefur ekki gengið sem skildi undanfarið.
Vélarþróunin hjá Renault Sport hefur ekki gengið sem skildi undanfarið. mbl.is/afp
Verkfræðingur í véladeild Renault í Viry-Chatillon, suður af París, að …
Verkfræðingur í véladeild Renault í Viry-Chatillon, suður af París, að þróa vél í prófunarbekk. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert