Hamilton óstöðvandi

Kimi Räikkönen á Ferrari á undan Lewis Hamilton á síðasta …
Kimi Räikkönen á Ferrari á undan Lewis Hamilton á síðasta þurra hring tímatökunnar í Sepang, fyrsta hring annarrar lotu. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól Malasíukappakstursins en liðsfélagi hans Nico Rosberg varð að sjá á eftir Sebastian Vettel hjá Ferrari fram úr sér og upp í annað sætið í lokin.

Ráspóllinn er sá fertugasti sem Hamilton vinnur á ferlinum og eflaust á þeim enn eftir að fjölga. Lét hann það ekki stöðva sig að verða aðeins sjöundi í annarri lotu tímatökunnar en henni var hætt rétt eftir að hún byrjaði vegna gríðarlegrar rigningar. Steyptist vatnið niður á brautina sem varð eins og stöðuvatn á augabragði.  

Vegna þessa dróst að lokalotan hæfist um rúma hálfa klukkustund. Þegar þá var komið réði Hamilton algjörlega ferðinni en Vettel átti hins vegar afar góðan hring í lokin og varð aðeins 74 þúsundustu úr sekúndu frá ráspólstíma Hamiltons. Tókst honum þar með að kljúfa Mercedesbílana og jafnframt er þetta í fyrsta sinn í tvö ár sem Ferraribíll hefur keppni af fremstu rásröð.

Ökumönnum Red Bull tókst betur upp í lokalotunni en þeim fyrri því Daniel Ricciardo hefur keppni í fjórða sæti og Daniil Kvyat því fimmta.

Í sætum sex til tíu urðu svo, í þessari röð: Max Verstappen hjá Toro Rosso, Felipe Massa hjá Williams, Romain Grosjean hjá Lotus, Valtteri Bottas hjá Williams og Marcus Ericsson hjá Sauber.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari gerði mistök í upphafi annarrar lotu og féll úr leik með því að verða í 11. sæti. Carlos Sainz hjá Toro Rosso hafði sýnt einstaklega góðan akstur og sett fjórða besta tíma í fyrstu lotu tímatökunnar. Hann gerði hins vegar mistök í annarri lotu er rigningin var að skella á og varð aðeins 15.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert