Með dömubindi á hausnum

Rosberg með hjálminn sem fóðraður verður með dömubindum til að …
Rosberg með hjálminn sem fóðraður verður með dömubindum til að beisla svitann í Sepang um helgina.

Ökumenn í formúlu-1 leita allra leiða til að sviti í andliti trufli akstur þeirra sem minnst. Láta þeir til dæmis bora fleiri loftgöt á hjálma fyrir mót í miklum hita, eins og í Sepang um helgina þar sem lofthiti getur farið upp undir 40°C.

Nico Rosberg hjá Mercedes hefur farið aðra leið en flestir ef ekki allir í glímunni við svitann inni í hjálminum, en vitaskuld getur svitinn til að mynda truflað sjón ökumanna.

Dömubindi er lausn Rosberg en vitað er jú til hvers sú flík er framleidd; einmitt til að sjúga í sig og varðveita aðra líkamsvessa. 

„Ég á í erfiðleikum með sjónina þegar ég svitna mikið og þess vegna er ég með höfuðband,“ sagði Rosberg við sjónvarpsstöðina Sky. „Ég er með nokkurs konar höfuðband inni í hjálminum, það er brellan mín skyldi ég segja. Ég set dömu . . . humm . . . kvað kallast það? Þetta sem þær setja í nærfötin sín.“

Þegar blaðamaðurinn spyr hvort hann eigi við „sokkabuxur“ svarar Rosberg: „Nei, þetta sem fer inn í nærbuxurnar“ áður en hann loks stumrar því út úr sér: dömubindi. „Ég set dömubindi á ennið í hjálminum til að sjúga í sig svitann.“

Brella Rosberg virðist virka því hann ók hraðast á fyrri æfingu gærdagsins og einnig á lokaæfingunni í Sepang í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert