21 þúsundasti á milli

Aðeins 21 þúsundasti úr sekúndu skildi Mercedesfélagana Lewis Hamilton og Nico Rosberg að á seinni æfingu dagsins í Monza á Ítalíu. Eins og á morgunæfingunni átti Sebastian Vettel hjá Ferrari þriðja besta hringinn, en hann var rúmlega 0,7 sekúndum lengur í förum. 

Rétt eins og í morgun urðu ökumenn Force India í fjórða og fimmta sæti og Kimi Räikkönen hjá Ferrari í því sjötta. Þeir félagarnir Sergio Perez og Nico Hülkenberg höfðu sætaskipti frá í morgun, Mexíkóbúinn var fljótari síðdegis.

Perez var einkar sprækur því hann náði mesta hraða í svonefndri hraðagildru út æfinguna, ók um hana best á 356,8 km/klst.

Ökumenn Lotus og Williams fylltu svo fyrsta tug lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar; Romain Grosjean átti sjöunda besta hringinn, Pastor Maldonado áttunda, Valtteri Bottas þann níunda besta og Felipe Massa þann tíunda. Þetta þýðir að af 10 fljótustu voru átta með Mercedesvélar í bílum sínum.

Mercedes er með nýja útgáfu af aflrás sinni í Monza en liðin þrjú sem það sér fyrir vélum eru ekki enn komin með uppfærðu vélina.

Á æfingunni glímdu ökumenn Red Bull og McLaren við tæknibilanir. Þannig setti Daniel Ricciardo hjá Red Bull aðeins 13. besta tímann en vökvakerfisbilun háði honum. Fernando Alonso hjá McLaren átti 16. besta tímann, Jenson Button þann 19. eftir aðeins þriggja hringja akstur, og Daniil Kvyat hjá Red Bull þann tuttugasta og síðasta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert