Brotthlaup og varahlutaskortur

Sauber á ferð í fyrsta móti ársins, Marcus Ericsson á …
Sauber á ferð í fyrsta móti ársins, Marcus Ericsson á undan og Felipe Nasr rétt á eftir. mbl.is/afp

Yfirmaður verkfræðimála á mótsstað hjá Sauberliðinu, Tim Malyon, sagði skilið við liðið  í vikunni eftir aðeins þrjá mánuði í starfi.

Sauber glímir við þrálátan fjárhagsvanda og hefur ekki getað borgað laun á tíma undanfarna mánuði. Þá herma fregnir að vegna peningaskorts hafi liðið ekki getað orðið sér úti um nægar birgðir varahluta sem gæti reynst dýrkeypt í kappakstri helgarinnar í Rússlandi.

Malyon kom til Sauber frá Red Bull í janúar sl. í stað Giampaolo Dall'Ara, sem gegndi sama starfi en var horfinn á braut. Formlega lætur Malyon ekki af störfum fyrr en um mánaðarmótin en kínverski kappaksturinn fyrir hálfum mánuði var engu að síður hans síðasti með Sauber.

Þetta er annað brotthvarf tæknimanns úr æðstu stöðum hjá Sauber því við upphaf keppnistíðarinnar yfirgaf tæknistjórinn Mark Smith það. Við starfi Malyon til bráðabirgða tekur Paul Russell, sem verið hefur keppnisvélfræðingur Felipe Nasr.

Vegna fjárstreymisvanda hafa laun ekki verið greidd á réttum tíma hjá Sauber undanfarin tvenn mánaðarmót. Styrktarfyrirtæki sænska ökumannsins Marcus Ericsson leystu vandann í annað skiptið og var þá hægt að greiða laun fyrir marsmánuð. Engu að síður voru greiðslurnar átta eða níu dögum á eftir áætlun.

Marcus Ericsson (fyrir miðju) við brautarskoðun í sotsjí í Rússlandi.
Marcus Ericsson (fyrir miðju) við brautarskoðun í sotsjí í Rússlandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert