Refsað fyrir dekkjarugling

Nico Hülkenberg á ferð í Hockenheim.
Nico Hülkenberg á ferð í Hockenheim. AFP

Nico Hülkenberg hjá Force India hefur verið færður aftur um eitt sæti vegna ruglings sem átti sér stað í bílskúr hans með dekk sem hann brúkaði í tímatökunum í Hockenheim.

Í fyrstu lotu tímatökunnar reyndist dekkjasett undir bílnum sem liðið hafði „skilað“ með rafrænum hætti eftir lokaæfinguna fyrr í dag. Þessi mistök stönguðust á við e-lið 24.3 greinar keppnisregla formúlunnar og því var Hülkenberg refsað þótt hvergi hafi hann sjálfur komið nálægt mistökum þessum.

Hülkenberg varð í sjöunda sæti en færist aftur í það áttunda og leggur á stað í kappaksturinn á morgun eftir Valtteri Bottas hjá Williams.

Já, óhætt er að segja, að regluverkið í formúlu-1 sé óvenjulegt, en þar með eru refsingar dagsins ekki upp taldar. Romain Grosjean hjá Haas og Carlos Sainz hjá Toro Rosso taka einnig út refsingar á rásmarki morgundagsins. Grosjean færist aftur um fimm sæti fyrir að skipta um gírkassa og Sainz færist aftur um þrjú sæti fyrir að hindra Felipe Massa í tímatökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert