Räikkönen efstur á lokaæfingunni

Kimi Räikkönen á ferð í Spa-Francorchamps í morgun.
Kimi Räikkönen á ferð í Spa-Francorchamps í morgun. AFP

Kimi Räikkönen hjá Ferrari ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatöku belgíska kappakstursins í Spa-Francorchamps. Næsthraðast fór Daniel Ricciardo hjá Red Bullog þriðja besta hringinn átti Sebastian Vettel hjá Ferrari.

Ökumenn Mercedes einbeittu sér að löngum aksturslotum í stað þess að freista topptíma. Varð Lewis Hamilton á endanum í fimmta sæti á lista yfir hröðustu hringi og Nico Rosberg í sjöunda sæti. Fékk Hamilton nýja íhluti í aflrás sína fyrir æfinguna og með breytingum á vélbúnaði í gær hefur hann kallað yfir sig 55 sæta afturfærslu á rásmarkinu á morgun.

Räikkönen hefur fjórum sinnum fagnað sigri í Spa en besti hringur hans mældist 1:47,974 mínútur. Var hann tveimur tíundu á undan Ricciardo og þremur tíundu á undan Vettel. Valtteri Bottas hjá Williams átti svo fjórða besta tímann.

Max Verstappen ók hraðast á seinni æfingu gærdagsins en gat aðeins ekið tvo úthringi á æfingunni í dag vegna bilunar í gírkassa.

Nico Hülkenberg og Sergio Perez hjá Force India urðu í sjötta og níunda sæti en milli þeirra urðu Rosberg sem fyrr segir og Felipe Massa.

Ökumenn Haas og McLaren tókust á um næstu fjögur sæti og þeirri rimmu lauk með því að Romain Grosjean mjakaði Fernando Alonso úr tíunda sæti og Esteban Gutiérrez hafði betur í glímu við Jenson Button um 12. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert