20. sigur Rosberg

Nico Rosberg ekur yfir endamarkið og fagnar sigri í Spa-Francorchamps …
Nico Rosberg ekur yfir endamarkið og fagnar sigri í Spa-Francorchamps í dag. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna sigur í belgíska kappakstrinum sem fram fór í tveimur hlutum eftir að keppni var stöðvuð vegna afar harðs skells danska ökumannsins Kevin Magnussen.

Sigur Rosberg var mjög öruggur og aldrei komst neinn í tæri við hann. Er þetta í fyrsta sinn sem hann vinnur kappaksturinn í Spa.

Í öðru sæti varð Daniel Ricciardo hjá Red Bull og í því þriðja Lewis Hamilton, sem hóf keppni aftastur. Félagi hans á öftustu röðinni, Fernando Alonso hjá McLaren, var lengi vel í fjórða sæti og þá enn á undan Hamilton. Á síðustu hringjunum féll Alonso niður í sjöunda sæti.

Á þeim kafla gat Alonso ekki varist báðum ökumönnum Force India og Sebastian Vettel hjá Ferrari sem varð sjötti. Nico Hülkenberg varð fjórði og Sergio Perez fimmti.

Í kjölsogi Alonso voru svo Valtteri Bottas hjá Williams, landi hans Kimi Räikkönen hjá Ferrari og Felipe Massa hjá Williams, sem varð tíundi í mark.

Keppni var mjög fjörleg um flest sæti nema það fyrsta og setti heimamaðurinn Max Verstappen mark sitt á hann, aðallega með varhugaverðum akstri. Undruðust sérfræðingar að honum skyldi engin refsing verið gerð fyrir óleyfilegt og jafnvel stórhættulegt framferði á brautinni. Meðal fórnarlamba hans voru báðir ökumenn Ferrari og vandaði Räikkönen honum ekki kveðjurnar í talstöðinni meðan á átökum þeirra stóð.

Með sigrinum minnkaði Rosberg forskot Hamiltons í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, en sennilega miklu minna en hann hafði vænst fyrst 20 bílar voru á milli þeirra á rásmarkinu. Hefur Hamilton 232 stig, eða níu stigum meira en fyrir keppni var forskot hans 19 stig. Rosberg er með 223 og Ricciardo er þriðji með 151 stig, Vettel fjórði með 128 stig og Räikkönen fimmti með 124 stig. 

Í stigakeppni liðanna er Mercedes með 455, Red Bull með 274 og Ferrari 252. Því næst er Force India með 103, Williams 101, McLaren 48, Toro Rosso 45, Haas 28, Renault 6 og Manor 1, en Sauber hefur enn ekkert stig unnið á vertíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert