Framferði Verstappen „ekki rétt“

Átök Max Verstappen og ökumanna Ferrari byrjuðu í fyrstu beygju …
Átök Max Verstappen og ökumanna Ferrari byrjuðu í fyrstu beygju í Spa-Francorchamps er bílarnir allra þriggja snertust. AFP
Kimi Räikkönen segir að Max Verstappen eigi eftir að valda „stórslysi“ á kappakstursbrautinni taki eftirlitsdómarar ekki á framferði hans í keppni. Til árekstra kom í dag milli þeirra öðru sinni í þremur síðustu mótum í dag.
Räikkönen freistaði framúraksturs undir lok beina langa kaflans inn að Les Combs beygjunni. Brúkaði  hann DRS-búnaðinn til að smeygja sér utanvert fram úr en Verstappen bremsaði seint innanvert fyrir beygjuna og knúði Kimi með því út fyrir braut.

Í annarri slíkri tilraun einum hring seinna segist Räikkönen hafa verið neyddur til að bremsa eftir að Verstappen breytti á síðustu stundu um aksturslínu til að verja línuna inn í beygjuna. Lét Räikkönen fúkyrðin fljúga í talstöðinni og sakaði Verstappen um hættulegt framferði.
„Ég er algjörlega fyrir góða og harða keppni en hafi ég þurft að lyfta bensíngjöfinni og jafnvel bremsa á leið inn að fimmtu beygju, verandi ennþá á beina kaflanum eftir að ég hafði breytt um línu og hann sveigt eftir það, þá er eitthvað ekki rétt við þetta,“ sagði finnski ökumaðurinn hjá Ferrari.

Sagði Räikkönen það torskilið að dómarar kappakstursins skyldu ekki rannsaka atvikin og bætti því við að yrði aldrei refsað ætti hann eftir að valda „meiriháttar slysi“.
„Af einhverri ástæðu fannst dómurunum þetta í lagi, en hefði ég ekki bremsað hefði stórslys hlotist af. Ég er viss um að það muni gerast fyrr en seinna breytist framferði hans ekki,“ sagði Räikkönen eftir kappaksturinn í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert