300. kappakstur Buttons

Jenson Button á heiðurshring fyrir kappaksturinn í Singapúr.
Jenson Button á heiðurshring fyrir kappaksturinn í Singapúr. AFP

JensonButton brýtur blað i formúlusögunni í Malasíukappakstrinum um komandi helgi. Verður það 300. kappaksturinn sem hann þreytir í formúlu-1.

Aðeins tveir ökumenn aðrir hafa keppt 300 sinnum í formúlunni, Rubens Barrichello og Michael Schumacher. Alls hefur Button unnið 15 mót á ferlinum sem hófst árið 2000. Vann hann heimsmeistaratitil ökumanna nokkuð örugglega árið 2009 með Brawn-liðinu. Á hann keppnisbíl sinn frá þeirri vertíð og er hann klár til aksturs með vél og öllu tilheyrandi.

Button segir að öldin sé önnur nú en þegar hann byrjaði keppni í formúlunni fyrir 16 árum. „Þá voru engir bílhermar til að æfa sig í. Reynsluakstur var meiri en við fengum ekki þau gögn og þær upplýsingar sem ökumenn búa yfir núna. Svo sem hvernig passa þurfi upp á dekkin, bremsurnar, spara eldsneyti, menn urðu að uppgötva það sjálfir. Það tók lengri tíma en nú en ég er ánægður að þetta var svona þá,“ segir Button í tilefni tímamótanna.

Hann stóð fyrsta sinni á verðlaunapalli í formúlu-1 í Malasíu árið 2004. Eftir fyrsta sigrinum þurfti Button að bíða fram til ársins 2006, í Búdapest. Varð hann fjórði í tímatökunni en hóf keppni af 14. rásstað vegna vélarvítis. Atvik í keppninni og veðurfarsaðstæður lögðust á sveif með honum með þeim hætti að hann vann sigur og var hálfri mínútu á undan næsta bíl.

Árið 2011 var Montreal í Kanada vettvangur eins ótrúlegasta sigurs Jensons Button. Hann sætti akstursvíti gegnum bílskúrareinina, braut framvæng, varð fyrir því að dekk sprakk í samstuði við Fernando Alonso og skall svo utan í Lewis Hamilton. Hóf hann keppni í sjöunda sæti og var um skeið tvisvar sinnum síðastur í kappakstrinum. Þrátt fyrir það og öll atvikin ók hann á endanum til sigurs.   

„Þegar ég hóf keppni í formúlu-1 hvarflaði það aldrei að mér að ég yrði enn í keppni þrítugur en nú er ég orðinn 36 ára og enn að. Tíminn hefur liðið mjög hratt, bókstaflega flogið áfram. Þetta er erfið íþrótt en ég hef átt margar góðar stundir - og erfiðar líka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert