Vika í ákvörðun Williams

Ekki er búist við öðru en að Valtteri Bottas verði …
Ekki er búist við öðru en að Valtteri Bottas verði áfram ökumaður Williams á næsta ári. AFP

Williams ætlar að skýra frá því fimmtudaginn eftir viku, 3. nóvember, hverjir verði ökumenn liðsins á næsta ári, 2017.

Talið er einna líklegast að kanadíski ökumaðurinn Lance Stroll komi í stað Felipe Massa sem hefur ákveðið að hætta keppni í formúlu-1. Reiknað er með að Valtteri Bottas haldi sæti sínu.

Stroll er meistari í Evrópumótaröðinni í formúlu-3 og hann hefur verið þróunarökumaður Williams. Vann hann titilinn með sigri í 14 mótum og í sex til viðbótar stóð hann á verðlaunapalli. Hlaut Stroll 187 stigum meira en næsti maður í keppninni um titil greinarinnar. Hann verður 18 ára á laugardaginn kemur, 29. október.

Til viðbótar Williams eiga Haas, Sauber og Manor eftir að staðfesta hverjir ökumenn þeirra á næsta ári verða. Því til viðbótar er eitt laust sæti hjá Force India og annað hjá Renault.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert