Hamilton gat ekki lengur vaðið yfir mig

Nico Rosberg er heimsmeistari.
Nico Rosberg er heimsmeistari. AFP

Heimsmeistarinn í Formúlu 1, Þjóðverjinn Nico Rosberg, segir frá baráttu sinni við Lewis Hamilton í viðtali við Daily Mail. Hamilton hafði betur gegn Rosberg, tvö fyrstu ár þeirra sem liðsfélagar, 2014 og 2015, en Rosberg varð loks heimsmeistari á síðasta ári eftir harða baráttu við Hamilton. 

Flestir bjuggust við að Hamilton myndi verja titilinn og verða meistari þriðja árið í röð, en svo fór ekki. Rosberg undirbjó sig öðruvísi fyrir tímabilið í fyrra en önnur tímabil og skilaði það sér að lokum. 

Hann æfði öðruvísi og fór vel yfir andlega þáttinn hjá sér ásamt því að hann varð árasárgjarnari í akstri sínum. 

„Lewis er mjög góður í að fara alla leið á brautinni, án þess að vera fantur, því hann er svo góður ökumaður. Hann átti ekki í nokkrum vandræðum með að vera hjól í hjól á meðan mér fannst það erfitt. Í fyrra ákvað ég að breyta því og fara alla leið.“

„Áður leyfði ég honum að vaða yfir mig en ég varð árásargjarnari á þessu ári. Ég ætlaði ekki að leyfa honum að ganga yfir mig aftur. Ég skoðaði myndbönd og fór yfir það sem ég gat bætt. Ég hætti að hjóla í sumar til að missa eitt kíló. Á næsta móti náði ég ráspól á Suzuki og það munaði einum hundraðsluta. Eitt kíló er virði eins hundraðshluta og því var ég á ráspól því vöðvarnir í löppunum voru aðeins léttari. Svona lítil smáatriði hjálpuðu mér,“ sagði Rosberg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert