Vettel sá við Hamilton

Sebastian Vettel hjá Ferrari var í þessu að vinna sigur í kappakstrinum í Melbourne og er það í fyrsta sinn í áratug sem Ferrari hrósar sigri þar, eða frá því Kimi Räikkönen vann árið 2007.

Räikkönen varð fjórði í mark í dag og er ekki dauður úr öllum æðum því á næst síðasta hring setti hann hraðasta hring dagsins.

Lewis Hamilton hjá Mercedes hóf keppni af ráspól og reyndi að verja stöðu sína í dekkjastoppinu en það mistókst. Þegar Vettel loks skipti um dekk nokkrum hringjum síðar hafði Hamilton tafist nógu mikið í förum á eftir öðrum bílum, að Vettel kom út úr sínu stoppi rétt fyrir framan nefið á Hamilton, sem þá var á eftir Max Verstappen hjá Red Bull sem ekki er frægur fyrir að gefa eftir í stöðubaráttu.

Sigurinn er sá fyrsti sem Vettel vinnur frá í Singapúr í hitteðfyrra, 2015.

Svo sem sjá mátti í sjónvarpsútsendingu var Mercedesstjóranum Toto Wolff ekki skemmt er Ferrari náði undirtökunum. Lamdi hann fast og ítrekað í borð í bílskúr sínum.

Valtteri Bottas hjá Mercedes varð þriðji í sínum fyrsta kappakstri með Mercedes en hann hóf keppni einnig í því sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert