Kveðst keppa út vertíðina

Jolyon Palmer er harður á því að hann keppi fyrir Renault út vertíðina. Segir hann fregnir um að hann yrði brátt látinn víkja fyrir Carlos Sainz staðlausar.

Palmer hefur ekki krækt í stig í keppni það sem af er keppnistíðinni og hefur það m.a. ýtt undir spádóma um að hann yrði látinn víkja fyrir Sainz, jafnvel í Malasíukappakstrinum.
 
„Ég hef engan áhuga á að tjá mig um þessar fréttir,“ svaraði hann er hann var spurður út í fregnirnar. „Ég veit hvað er á seyði, ég held það sé von á tilkynningu innan ekki svo langs tíma.“
 
Fregnir herma að Sainz sé á förum frá Toro Rosso til Renault og sé það liður í samningum um að Toro Rosso taki í notkun Hondavélar í stað véla frá Renault.

„Ég er með samning um sjö mót til viðbótar á þessu ári. Ég held það hafi verið tilgátur í 35 mót í röðað ég yrði ekki með í því næsta. Þessar fregnir eru því ekkert nýjar fyrir mér. Þetta stekkur af mér eins og vatn af önd. Ég á eftir að keppa í sjö mótum, ég keppi í Malasíu og ég verð með í lokamótinu í Abu Dhabi,“ sagði Palmer í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert