Hamilton heimsmeistari fjórða sinni

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna heimsmeistaratitil ökumanna í formúlu-1 fjórða sinni. Kom hann í mark í mexíkóska kappakstrinum í níunda sæti sem dugði því Sebastian Vettell á Ferrari varð aðeins fjórði.

Skullu þeir Vettel og Hamilton saman á útleið úr þriðju beygju á fyrsta hring og urðu báðir að aka beint inn að bílskúr til viðgerða; Vettel fékk nýjan framvæng og Hamilton nýjan dekkjagang vegna púnkteringar.

Max Verstappen á Red Bull vann sig úr öðru sæti á rásmarki í það fyrsta í annarri beygju og leit aldrei til baka. Vann hann með yfirburðum, annar varð Valtteri Bottas á Mercedes og Kimi Räikkönen á Ferrari þriðji.

Allan tímann snerist þó spennan í keppninni um framgang Hamiltons og Vettels og tryggði sá fyrrnefndi sér titilinn er hann vann sig fram úr Fernando Alonso á McLaren á þriðja síðasta hring og upp í níunda sætið. 

Vettel hefði þurft að ná öðru sæti til að framlengja titilslaginn fram í næsta mót en þótt sókn hans hafi verið beitt var bilið um of mikil til að ná í fremstu menn og komast á verðlaunapallinn.

Titillinn er sá fjórði sem Hamilton vinnur og skipar hann sér þar með á bekk með Alain Prost og Vettel. Fimm titla vann Juan Manuel Fangio á sínum tíma og Michael Schumacher sjö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert