Massa hættir

Felipe Massa hefur tilkynnt að hann hætti endanlega keppni í formúlu-1 við komandi vertíðarlok. Lýkur þá 15 ára keppnisferli hans í íþróttinni.

Á þessum 15 árum í formúlu-1 hefur Massa uppskorið 11 mótssigra og annað sætið í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna árið 2008.

Á Ítalíukappakstrinum í Monza í fyrra tilkynnti Massa um að hann færi „á eftirlaun“ í formúlunni við árslok 2016. Var hann kvaddur með pompi og pragt í síðustu tveimur mótum vertíðarinnar, í Brasilíu og Abu Dhabi.

Fyrirvaralaust brotthvarf Nico Rosberg nýkrýnds heimsmeistara úr íþróttinni olli því að Mercedes fékk Williamsliðið til að eftirláta sér Valtteri Bottas sem leysti Rosberg af hjá Mercedes.

Með því stóð Williams uppi ökumannslaust en tókst um síðir að tæla Massa út úr fríinu langa sem hann ákvað svo að fresta um eitt ár.  Reyndar gaf hann þá til kynna að hann gæti hugsað sér að keppa líka 2018.

Williamsliðið hófst hins vegar snemma handa um að leita að mögulegum eftirmanni Massa og líkur jukust því á að hinn 36 ára gamli ökumaður myndi ekki verða öllu lengur liðsmaður þess. Hann á því aðeins eftir að keppa í lokamótunum tveimur með Williams, á heimavelli í Sao Paulo í Brasilíu og í Abu Dhabi.

Massa kom til keppni í formúluö-1 árið 2002 með Sauber og keppti svo aftur fyrir liðið 2004 og 2005 eftir eitt ár sem reynsluökumaður Ferrari. Gekk hann til liðs við ítalska liðið 2006 vann sinn fyrsta sigur þegar á þeirri keppnistíð  í Tyrklandi. Hann var síðan með í keppninni um titil ökumanna alveg fram undir vertíðarlok bæði 2007 og 2008. Varð hann af síðarnefnda titlinum í dramatísku lokamóti á heimavelli í Sao Paulo.

Massa varð síðan fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum 2009 en sneri aftur til keppni árið eftir, 2010.  Fyrir utan 11 mótssigra hefur hann 16 ráspóla undir belti og á verðlaunapalli hefur hann staðið 41 sinni í 270 mótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert