Bottas greip gæsina

Valtteri Bottas á Mercedes var í þessu að vinna spennandi keppni um ráspól brasilíska kappakstursins í Sao Paulo. Fyrir lokaatlöguna var hann annar, á milli Ferrarimannanna Sebastians Vettel og Kimi Räikkönen. Greip hann gæsina er Vettel gerði mistök í lokin og skaust í toppsætið.

Vonbrigðin leyndu sér ekki í bílskúr Ferrari en aftur á móti sprakk gleðisprengja í bílskúr Mercedes er Bottas ók til síns þriðja ráspóls á keppnisferlinum. Veitti ekki af hressingunni því Lewis Hamilton hafði stórlaskað bíl sinn á upphitunarhring á fyrstu mínútum tímatökunnar. Urðu honum á sjaldgæf akstursmistök, kom of hratt inn í beygju á ísköldum dekkjum og skrensaði þvert út úr henni og skall harkalega á öryggisvegg, án þess þó að hann sakaði.

Hamilton hefur keppni í 20. og síðasta sæti á morgun og verða því Mercedesbílar á fremsta og aftasta rásstað í Interlagosbrautinni.

Um tíma leit út fyrir að Räikkönen ætlaði að ógna pólnum í lokaatlögu sinni en góður hraði framan af hringnum skilaði sér ekki í lokin og því hefur hann keppni í þriðja sæti, einu á eftir Vettel.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu Max Verstappen og Daniel Ricciardo á Red Bull, Sergei Perez á Force India, Fernando Alonso á McLaren, Nico Hülkenberg og Carlos Sainz á Renault og tíundi varð heimamaðurinn Felipe Massa á Williams.

Þar sem Ricciardo færist aftur eftir rásmarkinu vegna óvæntra breytinga í vélbúnaði bílsins færast þeir sem á eftir honum urðu í lokalotunni upp um eitt sæti á rásmarkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert