FH í úrslitaleik bikarsins eftir sigur á Breiðabliki

Guðmann Þórisson er meðal varamanna Blika í dag en Ásgeir …
Guðmann Þórisson er meðal varamanna Blika í dag en Ásgeir Gunnar Ásgeirsson er í liði FH. Árni Sæberg

FH-ingar eru komnir í úrslitaleik VISA-bikars karla í knattspyrnu eftir sigur á Breiðabliki, 3:1, í framlengdum leik í undanúrslitunum á Laugardalsvellinum í dag. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Tryggvi Guðmundsson og Atli Guðnason skoruðu fyrir FH og Prince Rajcomar fyrir Breiðablik.

FH mætir Fylki eða Fjölni í úrslitaleik keppninnar á Laugardalsvellinum 6. október en Reykjavíkurfélögin mætast á sama stað kl. 20 annað kvöld.

Fylgst var leiknum í textalýsingu á mbl.is:

120+1 Daði Lárusson markvörður FH ver vel frá Kristjáni Óla Sigurðssyni.

120. 3:1. Atli Guðnason innsiglar sigur FH þegar hann rennir boltanum í netið úr markteignum eftir að Tryggvi Guðmundsson slapp einn upp vinstra megin og inní vítateig Blika.

117. Prince Rajcomar, Breiðabliki, fær gula spjaldið fyrir mótmæli.

116. Arnar Gunnlaugsson í dauðafæri í miðjum vítateig Blika en skýtur beint á Jacobsen markvörð.

114. Freyr Bjarnason varnarmaður FH virðist handleika boltann í vítateig sínum en ekkert er dæmt. Kristján Óli Sigurðsson, Breiðabliki, fær gula spjaldið fyrir mótmæli í kjölfarið.

109. Fyrsta gula spjaldið í leiknum fær Tommy Nielsen, varnarmaður FH, fyrir að brjóta á Prince Rajcomar, framherja Breiðabliks. FH-ingar skipta um leikmann, Atli Guðnason kemur inná fyrir Matthías Guðmundsson.

104. Casper Jacobsen markvörður Blika ver hörkuskot FH-ingsins Sigurvins Ólafssonar af 20 m færi með tilþrifum.

100. 2:1. Tryggvi Guðmundsson kemur FH yfir. Davíð Þór Viðarsson átti skalla eftir fyrirgjöf Guðmundur Sævarssonar frá hægri. Jacobsen varði, Guðmann Þórisson virtist geta hreinsað frá marki en var of seinn og Tryggvi kom á ferðinni, renndi sér á boltann í markteignum og kom honum yfir marklínuna.

94. Arnar Gunnlaugsson í dauðafæri í vítateig Blika, einn gegn Casper Jacobsen, en boltinn strýkst við utanverða stöngina eftir skot hans.

92. Sigurvin Ólafsson í góðu færi í vítateig Blika en skýtur í varnarmann og í horn.

91. Framlengingin er hafin. Arnar Gunnlaugsson er kominn inná hjá FH fyrir Matthías Vilhjálmsson.

90+3 Blikar vilja fá vítaspyrnu á Tommy Nielsen, boltinn virtist fara í hönd hans. Garðar Örn Hinriksson flautar leikinn af nokkrum sekúndum síðar. Framlenging.

90+2 Gunnar Örn Jónsson sleppur innfyrir vörn FH og inní vítateiginn en Freyr Bjarnason stöðvar hann á síðustu stundu með frábærri tæklingu.

90+1 Nenad Zivanovic í dauðafæri eftir góðan sprett frá Árna Kristni Gunnarssyni en skýtur beint á Daða markvörð FH.

86. Tryggvi Guðmundsson sleppur inní vítateig Blika, vinstra megin og lyftir boltanum framhjá Jacobsen markverði en rétt framhjá stönginni fjær.

80. Sigurvin Ólafsson kemur inná hjá FH fyrir Ásgeir Gunnar Ásgeirsson.

80. Guðmann Þórisson varnarmaður Breiðabliks bjargar á marklínu eftir að Davíð Þór Viðarsson náði að senda boltann framhjá Jacobsen markverði.

79. Srdjan Gasic með hörkuskalla að marki FH eftir hornspyrnu Arnars Grétarssonar en Daði Lárusson ver vel með því að slá boltann yfir þverslána.

65. 1:1. Blikar jafna metin. Árni Kristinn Gunnarsson lék upp völlinn og skaut að marki FH af 25 m færi. Boltinn fór beint til Prince Racomars sem var í miðjum vítateignum og renndi honum í markhornið fjær.

63. Guðmann Þórisson og Magnús Páll Gunnarsson koma inná hjá Blikum fyrir Kristin Steindórsson og Olgeir Sigurgeirsson.

61. Casper Jacobsen kemur Blikum til bjargar þegar hann ver vel frá Matthíasi Vilhjálmssyni, í markhorninu niðri.

52. 1:0. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson kemur FH-ingum yfir. Eftir fyrirgjöf frá hægri og skalla Matthíasar Guðmundssonar hrökk boltinn af Nenad Petrovic varnarmanni Blika til Ásgeirs sem var rétt utan markteigs og hann þrumaði boltanum óverjandi uppundir þverslána.

45. Flautað til hálfleiks, staðan er 0:0. Ágætlega fjörlegur leikur og talsvert um hálffæri en lítið um dauðafæri til þessa. FH-ingar hafa verið heldur nær því að skora.

37. Matthías Guðmundsson í góðu færi hægra megin í vítateignum en Casper Jacobsen í marki Blika ver skot hans af öryggi.

30. FH fær hættulegasta færið til þessa, Matthías Vilhjálmsson með skot frá markteig eftir fyrirgjöf Tryggva Guðmundssonar frá vinstri en Casper Jacobsen markvörður Blika nær að blaka boltanum yfir þverslána.

20. Þokkaleg færi á báða bóga fyrstu 20 mínúturnar og FH-ingar heldur ágengari. Engin dauðafæri hafa þó litið dagsins ljós.

Lið FH: Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Dennis Siim, Davíð Þór Viðarsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Matthías Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson, Tryggvi Guðmundsson.

Lið Breiðabliks: Casper Jacobsen, Árni Kristinn Gunnarsson, Nenad Petrovic, Srdjan Gasic, Arnór S. Aðalsteinsson, Gunnar Örn Jónsson, Arnar Grétarsson, Olgeir Sigurgeirsson, Nenad Zivanovic, Kristinn Steindórsson, Prince Rajcomar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka