Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 87. sæti á nýjum heimslista FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, sem gefinn var út í dag og hefur hækkað sig um þrjú sæti síðan í desember.
Íslenska liðið hefur ekki spilað á þessum tíma, og lítið verið um landsleiki hjá Evrópuþjóðum, en sveiflur liða í öðrum heimsálfum hafa mest að segja um þessar breytingar.
Staða efstu þjóða á listanum er óbreytt en tíu efstu eru Argentína, Brasilía, Ítalía, Spánn, Þýskaland, Tékkland, Frakkland, Portúgal, Holland og Króatía. Alls eru 207 þjóðir á heimslistanum, þar af 53 sem tilheyra Knattspyrnusambandi Evrópu.