Keppni í Landsbankadeild karla í knattspyrnu hefst laugardaginn 10. maí, en nú verða í fyrsta sinn tólf lið í deildinni. Lokaumferð deildarinnar verður 27. september og því er það leikið á jafn löngum tíma og í fyrra þrátt fyrir að liðum hafi fjölgað um tvö.
Stærstur hluti leikja í deildinni verða á sunnudögum en næst flestir á mánudögum. Annars er leikið alla daga vikunnar nema enginn leikur verður á föstudegi í sumar.
Leikmenn sögðu í vetur að þeir vildu hafa fasta leikdaga á miðvikudögum og fimmtudögum en KSÍ hlustar greinilega ekki mikið á það því það eru aðeins 5 leikir á miðvikudegi í sumar og 15 á fimmtudegi, en alls eru leikir deildarinnar 132 talsins.