Stjórn knattspyrnudeildar KR hefur sagt upp Gareth O'Sullivan, þjálfara meistaraflokks kvenna, og lætur hann strax af störfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt var á vef KR nú um tíuleytið í kvöld.
Ástæða uppsagnarinnar er sögð vera trúnaðarbrestur milli knattspyrnudeildarinnar og þjálfarans.
O'Sullivan er 38 ára gamall Íri sem þjálfaði lið Aftureldingar árin 2007 og 2008. Hann var ráðinn til KR í haust í stað Helenu Ólafsdóttur.
Kristrún Lilja Daðadóttir, þjálfari 2. flokks kvenna hjá KR, hefur tekið við stjórn meistaraflokksliðsins á meðan leitað er að nýjum þjálfara. Kristrún stjórnaði liði KR í síðasta leik liðsins, 0:9 tapi gegn Breiðabliki í deildabikarnum, í fjarveru O'Sullivans.