Ítalska knattspyrnuliðið Juventus greindi frá því í dag að það hafi gert samning við brasilíska miðjumanninn Diego. Hann kemur til liðsins frá þýska liðinu Werder Bremen og er samningur hans til ársins 2014.
Kaupverðið er 24,5 milljónir evra sem jafngildir 4,3 milljörðum íslenskra króna. Diego hefur leikið með Werder Bremen undanfarin þrjú ár og hefur náð að skora 38 mörk fyrir liðið í 84 leikjum. Þá á hann að baki 15 leiki með brasilíska landsliðinu.
Diego er ætlað að fylla skarð Tékkans Pavel Nedveds sem hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið.