Emil Hallfreðsson landsliðsmaður í knattspyrnu segist ekkert vita hvað taki við hjá sér í sumar en lið hans Reggina er fallið úr ítölsku A-deildinni og leikur kveðjuleik sinn í deildinni á heimavelli um næstu helgi þegar það fær Siena í heimsókn.
,,Það kemur eiginlega engum á óvart að við skyldum fara niður. Við höfum verið í neðsta sætinu nær allt tímabilið. Við áttum möguleika á að bjarga okkur en við klúðruðum því. Þetta er búið ansi skrautlegt tímabil. Hver þjálfarinn á fætur öðrum hefur komið til liðsins. Ég held að það hafi verið skipt fimm sinnum um þjálfara frá því ég kom,“ sagði Emil í samtali við Morgunblaðið í gær.
Emil á tvö ár eftir af samningi sínum við Reggina en hann er staðráðinn í að komast frá félaginu í sumar.
,,Það veit enginn neitt hvað gerist eftir tímabilið. Forsetinn segist ætla að fara beint upp aftur en það veit enginn hvaða leikmenn verða áfram og hverjir verða látnir fara. Ég stefni á að komast í burtu og ég held að forráðamenn liðsins viti það enda er ég búinn að segja síðan í nóvember að ég vilji fara,“ sagði Emil.