Kvennalandsliðið undirstrikaði styrk sinn

Íslensku leikmennirnir fagna marki í Frakklandi í fyrra.
Íslensku leikmennirnir fagna marki í Frakklandi í fyrra. mbl.is/Ómar

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu undirstrikaði styrk sinn í vináttulandsleik við Englendinga í borginni Colchester í dag. Ísland skellti Englandi 2:0 í jöfnum og skemmtilegum leik með mörkum frá Hólmfríði Magnúsdóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Enska liðið er geysilega sterkt og er í 9. sæti á styrkleika alþjóða knattspyrnusambandsins. Englendingar tefldu fram nánast öllum sínum sterkustu leikmönnum rétt eins og Íslendingar.

Íslenska liðið leikur einnig vináttulandsleik við Dani á sunnudaginn á Englandi en leikirnir eru liður í undirbúningi liðanna fyrir lokakeppni EM í Finnlandi í ágúst.

90. mín. Leiknum er lokið með sögulegum sigri Íslands sem var að sigra England í fyrsta skipti í kvennalandsleik. Liðin hafa mæst tíu sinnum og hafa Englendignar unnið átta sinnum.

88. mín. Hólmfríður fékk dauðafæri en markvörðurinn varði laust skot hennar.

82. mín. Dóra María Lárusdóttir fer af velli og Erla Steina Arnardóttir kemur í hennar stað. Kantmaður inn fyrir kantmann.

81. mín. 0:2. Margrét Lára Viðarsdóttir slapp inn fyrir vörn Englendinga eftir frábæra stungusendingu frá Dóru Maríu Lárusdóttur og skoraði örugglega.  Frábær úrslit innan seilingar hjá Íslandi.

79. mín. Þær ensku gerðu sig líklega og komu skoti á markið en varnarmaður Íslands bjargaði á marklínu. Leikmenn eru farnir að þreytast og harkan í leiknum hefur aukist.

77. mín.  Ólína G. Viðarsdóttir fékk að líta gula spjaldið fyrir að stöðva hraða sókn Englendinga.

69. mín. Dóra Stefánsdóttir fer af leikvelli og Katrín Ómarsdóttir kemur inn á í hennar stað. Miðjumaður út af og miðjumaður inn á í staðinn.

65. mín. Þóra B. Helgadóttir varði glæsilega í markinu þegar England fékk sitt besta færi í leiknum til þessa.

60. mín. Íslenska landsliði á í fullu tré við þær ensku enn sem komið er. Leikurinn fjörugur og mikið að gerast. Leikurinn getur því farið á hvorn veginn sem er. 

59. mín. Margrét Lára hefur fengið talsvert svigrúm til þess að athafna sig. Hún komst í ágætt færi en skaut rétt fram hjá markinu. Góð sókn hjá íslenska liðinu.

57. mín. Margrét Lára Viðarsdóttir reyndi skot af mjög löngu færi en varamarkvörður enska liðsins náði að blaka boltanum yfir. 

45. mín. Ísland er 1:0 yfir í hálfleik í Colchester gegn einu sterkasta landsliði í Evrópu. Mjög góð frammistaða hjá íslenska liðinu sem hefur barist vel fyrir þessari forystu. Enskir áhorfendur eru hins vegar ósáttir við stöðu mála og vilja sjá breytingar á sínu liði í seinni hálfleik.

43. mín. Englendingar áttu tilraun til þess að jafna leikinn á markamínútunni. Fengu þá hornspyrnu og náðu skalla að markinu en Dóra María Lárusdóttir skallaði frá á marklínu af mikilli yfirvegun.

38. mín. Ísland er enn yfir 1:0 og íslensku leikmennirnir hafa síður en svo dregið lið sitt í vörn. Leikurinn mun vera skemmtilegur á að horfa. Fyrirliði Englands Faye White var að fá gult spjald við brot á Margréti Láru.

29. mín. 0:1. Hólmfríður Magnúsdóttir slapp í gegnum vörn Englendinga og afgreiddi knöttinn í netið þegar markvörðurinn kom út á móti henni. Dóra Stefánsdóttir átti sendinguna á Hólmfríði. Ísland komið yfir gegn liði sem er í 9. sæti á styrkleikalistanum og á útivelli á auki.

25. mín. Leikurinn hefur verið hraður og fjörugur. Liðin sækja á víxl og leikurinn er mjög opinn. 

17. mín. Margrét Lára virtist vera að komast í  gott marktækifæri en féll í vítateig Englendinga eftir samskipti við enska varnarmenn. Dómarinn sá ekkert athugavert.

15. mín. Hólmfríður Magnúsdóttir skaut fram hjá markinu úr ágætu færi.

13. mín. Margrét Lára Viðarsdóttir átti gott skot að marki Englendinga en marvörðurinn varði. 

10. mín. Leikurinn fór fremur rólega af stað og ekkert almennilegt marktækifæri sást á fyrstu tíu mínútunum. Enska liðið er með 30 manna hóp fyrir leikina tvo um helgina og eru tveir sterkir leikmenn ekki með í dag.  Að sögn heimamanna voru um 5000 miðar seldir á leikinn en leikurinn fer fram á frábærum velli og í blíðskaparveðri.

Byrjunarliðið Íslands (4-5-1):

Markvörður: Þóra B. Helgadóttir

Hægri bakvörður: Erna B. Sigurðardóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert