Gengið hefur verið frá öllum smáatriðum varðandi félagaskipti Zlatan Ibrahimovic frá Inter til Barcelona og skrifaði hann undir 5 ára samning við Evrópumeistarana. Barcelona lét Kamerúnann Samuel Eto'o í skiptum og greiddi þar að auki 45 milljónir evra eða 8,1 milljarð króna. Eto'o skrifaði að sama skapi undir 5 ára samning við Ítalíumeistarana.
Sem kunnugt er mun Alexander Hleb verða lánaður frá Barcelona til Inter og er það hluti af samningnum. Inter mun svo geta keypt kappann að ári fyrir tíu milljónir evra.
Zlatan, sem kynntur var frammi fyrir 60.000 stuðningsmönnum í gær, tekur við treyjunúmeri Eto'o og verður númer 9 hjá Barcelona. Segja Börsungar að í samningnum sé Eto'o metinn á 20 milljónir evra en hann verður að sama skapi númer 9 hjá Inter.